Eftir Þórarinn Gunnarsson

Ánauð

Kilja
Útgáfuár: 2010

Hvers virði er eitt mannslíf?
Jannika flýr í ofboði undan harðskeyttum glæpamönnum og hittir fyrir stöðumælavörðinn Sólveigu sem hún biður um að hjálpa sér. Sólveig ákveður að taka hana undir sinn verndarvæng en um leið stofnar hún lífi sínu í mikla hættu og blandast inn í atburðarás vændis og mansals.

Aðrar útgáfur

Ánauð-Hljóðbók

Ánauð-Rafbók

1. Kafli-Ánauð

Hún lá á bakinu í rúminu bundin á höndum og fótum við rúmgaflana með hvitum plastböndum. Hettan sem var yfir höfðinu á henni huldi augu hennar en tvö stór göt sáu til þess að hún gat andað með nefi og munni. Stúlkan vissi að hún var ekki ein í herberginu en hún hafði ekki hugmynd um hver það var sem hafði sest klofvega ofan á hana fyrr en hún fann fyrir einhverju hörðu á milli brjósta sér. Hún reyndi að anda með munninum til að losna við fnykinn af sætum ódýrum rakspíra sem fyllti vit hennar en heit tunga mannsins kom í veg fyrir það. Hún kom engum vörnum við, hann hélt áfram að sleikja á henni varirnar og heitur slímugur vökvi slettist á nef hennar og munn. Hún gat aðeins vonað að hann yrði fljótur að ljúka sér af, en unaðsstunurnar sem komu frá manninum gerðu þá von hennar að engu. Hún reyndi að hugsa um eitthvað skemmtilegt á meðan maðurinn hélt áfram að svívirða hana.

Upphæðin sem hann þurfti að reiða af hendi var ekki há á hans mælikvarða. Hann var með nokkrar milljónir á mánuði og gat hvenær sem er keypt sér litla mellu til að ríða eða gera við það sem honum datt í hug. Sú sem hann hafði nýlokið við að afgreiða hafði staðið undir öllum hans kröfum. Hún hafði verið á þeim aldri sem hann bað um, á milli sextán ára og tvítugs, af erlendum uppruna og óspjölluð. Hann þekkti það þegar kona var óspjölluð á viðbrögðum hennar. Hún hafði titrað af skelfingu og hræðslu og tárin sem höfðu runnið niður kinnar hennar undir hettugrímunni höfðu verið raunveruleg. Hann fann enn saltbragðið af þeim á tungunni á sér. Maðurinn startaði Porche jepplingnum í gang og ók af stað heim á leið.

Jannika settist við kámugt eldhúsborðið með samloku í annarri hendi og kókdós í hinni. Skjálftinn í líkamanum hafði nú náð út í hendurnar og hún átti í erfiðleikum með að opna kókdósina. Það tókst þó að lokum. Kókdósin og samlokan höfði verið það eina sem var í ísskápnum. Engin sprauta, engin plastpoki með ljósu dufti í, ekkert fix handa henni. Hún skildi ekki alveg hvers vegna. Hún hafði gert það sem þeir sögðu henni að gera og að hennar mati hafði hún staðið sig vel. Hún stóð upp frá borðinu og gekk fram á langan gang sem var með nokkrum herbergisdyrum á hvora hönd. Hún valdi dyrnar sem voru fyrstar á vinstri hönd og bankaði laust.
„Hvað?“ Var kallað innan úr herberginu á pólsku.
„Þetta er Jannika,“ kallaði stúlkan á móti.
„Hvað viltu?“
Jannika opnaði dyrnar varlega og steig í hurðagættina. „Það er ekkert handa mér í ísskápnum.“
„Ekkert hvað? Var ekki samloka í ísskápnum?“
„Jú en ég þarf að fá skammtinn minn líka. Hann er vanalega í ísskápnum.“