Þórarinn Gunnarsson

Ógn

Rafbók
Útgáfuár: 2007

Raðmorðingjar herja á eldri borgara og barnungar fyrirsætur í Reykjavík. Hverjir eru þeir? Eru þeir að myrða af handahófi eða býr eitthvað annað að baki voðaverkunum?
Axel og Georg þurfa að takast á við snjalla og miskunnarlausa morðingja

Rafbókin Ógn

  • Format: Epub og Mobi

Aðrar útgáfur

Ógn-Kilja

Ógn-Hljóðbók

1. kafli-Ógn

Hann var byrjaður að stirðna úr kulda. Þó að veðrið væri milt og gott og frekar heitt á íslenskan mælikvarða sótti kuldinn að hægt og rólega. Það var miður júlí, um tólf stiga hiti og nánast logn. Hann beið samt rólegur, enda hafði hann nægan tíma. Hann renndi hendinni í gegnum þykkt svart hárið sem náði honum niður á axlir. Hann var klæddur Levis-gallabuxum og svörtum stutterma háskólabol undir grænni flíspeysu. Eitthvað var að gerast. Hann sá að karlmaður sneri baki við útigrillinu og gekk inn eftir pallinum sem lá umhverfis bústaðinn. Hann þurfti að taka ákvörðun á augabragði. Átti hann að fara á eftir honum núna eða bíða eftir betra tækifæri? Hann leit snöggt í kringum sig og gekk varlega út úr trjárunnunum og í áttina að bakhliðinni á bústaðnum, þaðan sem hann fór eftir litlum og þröngum gönguslóða sem lá á milli trjánna og út að bílastæðinu við bústaðinn. Þar sá hann hvar maður stóð og var að leita að einhverju aftan í Land Cruiser-jeppanum sínum. Þetta var fínt tækifæri. Enginn var nálægt enda vissi snillingurinn sem var að það var ekki sála í næsta sumarbústað hinum megin við bílastæðið. Hann herti gönguna án þess þó að hlaupa upp og var kominn aftan að manninum á augabragði. Þetta var of auðvelt. Hann tók manninn föstu hálstaki þannig að hann gat ekki komið upp orði og herti takið hægt og rólega þangað til hann missti máttinn og lyppaðist niður á jörðina. Þetta var hans fyrsta skipti og hann naut þess til fulls. Hann gat næstum því fundið hvernig endorfínið æddi um æðarnar og upp í heila. Alsæla eða því sem næst og hann var ekki einu sinni sveittur. Hann lyfti manninum auðveldlega, enda var hann lítill vexti og varla nema sjötíu kíló að þyngd, og lagði hann aftur í jeppann. Þetta verk var auðvelt fyrir snillinginn. Einum of auðvelt. Hann lokaði afturhleranum á jeppanum eins hljóðlega og hann gat og gekk rólega af stað í áttina að bústaðnum. Nú var komið að því að gera það sem hann hafði ætlað sér að gera. Hann glotti við tönn. Nú var gamanið að byrja. Hin raunverulega prófraun var að hefjast. Honum fannst verst hvað þetta hafði verið auðvelt til þessa.

Hún var ánægð. Mjög ánægð. Hún fékk ekki oft tækifæri til að vera ein með manninum sem hún elskaði, hvað þá heila helgi. Hún hafði ákveðið að koma honum á óvart með því að leigja sumarhús handa þeim þar sem þau gætu varið rómantískri helgi saman tvö ein. Engin börn, engir vinir, aðeins þau tvö. Þau höfðu komið kvöldið áður og voru búin að liggja með tærnar upp í loft síðan þá. Eða eitthvað í þá veruna. Þau voru búin að haga sér eins og kanínur allan tímann. Þau höfðu þurft á því að halda. Öll sambönd þurftu á svona stundum að halda. Rómantík, friður og fullkomin útrás. Um leið og hún opnaði dyrnar á baðherberginu fann hún ilminn af grillinu. Yndislegan steikarilm af kjöti, kryddi og kolum. Þetta var fullkomið. Hún hafði ákveðið að klæða sig í samræmi við tilefnið. Hún gekk rólega að dyrunum út á pallinn í rauðum silkináttfötum einum fata með sítt, svart hárið slegið og hún vonaði að Runólfur yrði ánægður með það sem hann sæi þegar hún kæmi gangandi út á pallinn til hans. Hún steig ofurlétt út á pallinn en greip í tómt. Enginn Runólfur stóð hjá grillinu þar sem steikurnar lágu fyrir ofan rauðglóandi kolin.
„Runólfur.“ Hún kallaði lágt og rólega. „Hvar ertu?“ Kannski hafði hann ætlað að koma henni á óvart? Kannski lá hann allsber inni í hjónarúmi með rauða rós í munninum? Hún brosti að þessari hugsun sinni.
Ekkert svar. Það eina sem hún heyrði var skrjáfið í laufinu á trjánum þegar golan ýtti rólega við því. Hún sneri sér við til að ganga inn í bústaðinn aftur en sjónin sem mætti henni gerði henni svo bilt við að hún féll næstum því afturfyrir sig. Það stóð maður við hornið á bústaðnum, um tvo metra frá henni.
„Guð minn góður, hvað mér brá“ stundi hún þegar hún hafði jafnað sig að mestu. „Get ég aðstoðað þig við eitthvað?“
Hann sagði ekki orð heldur starði beint á hana.