Þórarinn Gunnarsson

Bráðar eru blóðnætur

Kilja
Útgáfuár: 2009

Raðmorðingjar herja á eldri borgara og barnungar fyrirsætur í Reykjavík. Hverjir eru þeir? Eru þeir að myrða af handahófi eða býr eitthvað annað að baki voðaverkunum?
Axel og Georg þurfa að takast á við snjalla og miskunnarlausa morðingja

Aðrar útgáfur

Bráðar eru blóðnætur-Hljóðbók

Bráðar eru blóðnætur-Rafbók

1.kafli-Bráðar eru blóðnætur

Litirnir í kringum fyrirsætuna í málverkinu voru æpandi skærir. Það var engin regla eða form á þeim. Þeir blæddu yfir strigann í fullum litastyrk en þynntust út við hvítan bakgrunninn undir fölleitu andliti fyrirsætunnar. Hún lá á bakinu á fleti sem samanstóð af marglitum og slitnum rúmteppum. Andlitið hallaði út á hlið í átt að trönum listamannsins og fæturnir voru beinir en krosslagðir. Hendurnar huldu brjóst hennar þar sem hún krosslagði þær, með lófana niður, ofan á bringunni. Listamaðurinn lagði pensilinn frá sér, gekk að fyrirsætunni og dreifði úr hvítu síðu hári hennar þannig að það huldi helming andlitsins og fingurna ofan á bringunni. Nú var hún einmitt eins og hann vildi hafa hana. Listamaðurinn snaraði sér til baka að trönunum og málverkinu og lauk við síðustu penslastrokurnar. Eftir að hafa virt málverkið fyrir sér í nokkrar sekúndur skráði hann nafn sitt og ártal undir það. Fullkomið var ekki orðið sem kom upp í hans þegar hann virti málverkið aftur fyrir sér. Stórkostlegt passaði betur. Hann tók málverkið varlega af trönunum og lagði það frá sér upp við vegg í vinnustofunni. Þessu næst gekk hann frá málningarpenslunum á sinn stað, lokaði litatúpunum og færði trönurnar upp að öðrum vegg í vinnustofunni.
„Jæja vina mín, þá er þessu lokið.” Hann beygði sig niður að fyrirsætunni og strauk hár hennar frá andlitinu. Svo falleg, svo saklaus, svo yndisleg. Fyrirsætan starði á hann og skelfingin í augnaráði hennar leyndi sér ekki. Hún var hætt að reyna að losa sig úr böndunum sem héldu henni fastri enda vissi hún af fenginni reynslu að það var vonlaust. Seglgarnið sem hann hafði vafið utan um hana eins og hún væri rúllupylsa, skarst inn í húð hennar í hvert skipti sem hún reyndi að færa sig. Listamaðurinn rykkti snöggt í annan endann á límbandinu sem huldi munn fyrirsætunnar svo það losnaði auðveldlega. Áður en hún gat komið upp orði lagði hann vísifingur yfir varir hennar.
„Suss,“ hvíslaði hann. „Það hefur ekkert upp á sig að fara að æpa. Það heyrir enginn í þér.“ Hann smellti léttum kossi á varir hennar áður en hann rétti úr sér og gekk yfir að borðinu sem geymdi málningarpenslana.
„Hvers vegna ertu að gera þetta?“ Stundi fyrirsætan upp þvoglumælt. „Af hverju er ég bundin? Hvar er ég eiginlega?“
„Þetta er allt saman hluti af listaverkinu vina mín,“ svaraði listamaðurinn. Hann tók Canon EOS 40 myndavél af borðinu og sneri sér að fyrirsætunni. „Ef þú bærir eitthvað skynbragð á list þá myndir þú kannski skilja þetta allt saman. En þar sem þú veist örugglega ekki hvað list er þá ætla ég ekki að vera að eyða tímanum í að útskýra það fyrir þér. Það eina sem þú þarft að vita er að nú ert þú hluti af listaverki. Ódauðlegu listaverki.“ Hann beindi myndavélinni að fyrirsætunni og smellti af nokkrum sinnum.
„Getur þú þá ekki losað böndin af mér núna? Þau meiða mig og mér er illt í höfðinu.“
„Vertu róleg.“ Listamaðurinn færði ól myndavélarinnar yfir höfuð sér og lét hana hanga niður á bringu. „Ég gaf þér róandi. Þess vegna ertu með höfuðverk.“
„Leystu mig. Þessi bönd meiða mig,“ sagði fyrirsætan ákveðnum en þó biðjandi rómi.
„Slakaðu á,“ svaraði listamaðurinn um leið og hann kraup fram á annað hnéð við hliðina á fyrirsætunni. Án þess að hika tók hann stóran glæran plastpoka upp úr öðrum buxnavasanum og smeygði honum yfir höfuð fyrirsætunnar. Þessu næst teygði hann sig í límbandsrúllu sem lá á gólfinu við hliðina á honum og vafði límbandinu nokkra hringi utan um háls fyrirsætunnar til að það héldi plastpokanaum á sínum stað. Hann lét sem hann heyrði ekki niðurbælt ópið sem barst í gegnum plastpokann heldur stóð á fætur með myndavélina á milli handanna og smellti af í gríð og erg.

Þær gengu skipulega til verks. Birna Guðríður stakk lyklinum í skráargatið á útidyrahurðinni á meðan Ingiríður Arna fylgdist með hvort einhver væri á ferli í nágrenninu. Dyrnar opnuðust í fyrstu atrennu og konurnar smeygðu sér inn fyrir og lokuðu á eftir sér. Þær gengu beint af augum inn stuttan þröngan gang og að hurð við enda hans. Þær litu hvor á aðra í augnablik áður en Ingiríður Arna opnaði svefnherbergisdyrnar. Sólmundur var þegar kominn fram úr rúminu og út á mitt gólf í herberginu. Hann var á nærbuxum einum fata og ringlaður að sjá enda nývaknaður.
„Hvað í andskotanum eruð þið að gera hér?“ Hann gekk ógnandi í átt til kvennanna sem voru komnar inn í herbergið.
„Komið ykkur út á stundinni dópistapakk,“ hvæsti hann.
„Þú ættir að fá þér öryggiskerfi Sólmundur minn“, sagði Ingiríður Arna um leið og hún gaf Sólmundi raflost með litlu rafstuðtæki sem hún hélt á í annarri hendi.
„Hver andskotinn,“ stundi Sólmundur. Hann greip um öxl sér og steig eitt skref afturábak en hlaut að launum annað og eilítið lengra rafstuð. Það var meira en hann þoldi og hann féll meðvitundarlaus í gólfið.
„Það er meira hvað karlmenn eru miklir aumingjar nú til dags“, sagði Birna Guðríður með glott á vör. „Við svona aðstæður hefði maður haldið að menn gerðu eitthvað allt annað en að lyppast niður? Ég meina, þú ert karlmaður sem vaknar upp við það að tvær kynæsandi konur eru komnar inn i svefnherbergið þitt. Og þú lyppast bara niður og verður að aumingja.“
Ingiríður Arna skellti upp úr. „Já það er enginn dugur í þessum körlum lengur. Hjálpaðu mér að koma honum upp af gólfinu.“
Þær hjálpuðust að við að lyfta Sólmundi af gólfinu og upp í rúm.